Fótbolti

Tifandi tímasprengja í franska hópnum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Franski landsliðsmaðurinn Nicolas Anelka segir að það hafi verið tifandi tímasprengja í herbúðum franska landsliðsins á HM. Það hafi aðeins verið spurning hvenær allt myndi springa í loft upp.

Anelka var einmitt sendur heim af mótinu eftir rifrildi við landsliðsþjálfarann, Raymond Domenech. Það þarf síðan ekki að fjölyrða um árangur liðsins á HM sem var enginn.

Það var augljóslega uppreisn í leikmannahópnum gegn þjálfaranum. Einhverjar fréttir voru um að einhverjir leikmenn hefðu verið neyddir til þess að fara í verkfallið fræga en Anelka segir það ekki vera satt.

"Ef ég hefði ekki gert allt vitlaust þá hefði einhver annar gert það. Það var tifandi tímasprengja í herbúðum liðsins sem menn biðu eftir að springi. Það voru allir leikmenn sem einn í þessu máli," sagði Anelka.

"Varðandi verkfallið þá stóðu allir saman líka. Ef einhverjir hefðu viljað æfa þá ættu þeir að segja það en ég tel að allir hafi staðið saman. Það vildi enginn æfa."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×