Enski boltinn

Mascherano gæti spilað á móti Arsenal

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
GettyImages
Roy Hodgson segir að Javier Mascherano gæti spilað með Liverpool í leiknum gegn Arsenal á sunnudag. Ekkert tilboð hafi borist í miðjumanninn.

Mascherano hefur greint frá því að hann vilji komast frá Liverpool. Talið er að Barcelona og Inter Milan hafi áhuga á kappanum.

Beðið var eftir því að Mario Balotelli semji við Manchester City áður en Inter býður í hann. Barcelona hefur sagst vera tilbúið að bjóða 12 milljónir punda og Alexander Hleb fyrir Mascherano.

Hodgson segir að Christian Poulsen hafi ekki verið keyptur sem eftirmaður Mascherano, heldur til að breikka hópinn hjá Liverpool.

Ef Mascherano verður seldur vill Hodgson þá væntanlega bæta við sig öðrum heimsklassa miðjumanni. Hingað til hefur það ekki verið talið í myndinni.

"Ég er búinn að stýra Mascherano á sjö eða átta æfingum og við tölum bara um fótbolta. Það þýðir ekkert að tala um hvað hann sagði eða kann að hafa sagt," sagði Hodgson.

"Það hafa engin tilboð borist í hann en ef það kemur ætlum við ekki að standa í vegi fyrir því að hann fari. Þangað til leggur hann hart að sér fyrir Liverpool."

Hodgson staðfesti einnig að félagið væri nálægt því að fá markmanninn Brad Jones frá Middlesbrough.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×