Enski boltinn

Eigendur Liverpool borga 2,5 milljónir punda í sekt hverja viku

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Burt með ykkur, segja stuðningsmenn Liverpool.
Burt með ykkur, segja stuðningsmenn Liverpool. GettyImages
Eigendur Liverpool eru sektaðir um 2,5 milljónir punda í hverri viku sem þeir eiga klúbbinn. Þeim hefur verið gert að selja og því lengur sem það dregst, því meiri peningum tapa þeir.

The Guardian segir að Royal Bank of Scotland, sem þeir Tom Hicks og George Gillett skulda 185 milljónir punda frá því að þeir keyptu klúbbinn, gæti fengið allt til baka með vöxtunum og sektunum sem eigendurnir greiða.

Guardian segir einnig að ef klúbburinn verður ekki seldur fyrir 6. október þurfi þeir að greiða 60 milljónir punda í aukasekt vegna málsins.

Liverpool vonaðist eftir því að fá föst tilboð í félagið í síðasta lagi í dag en þeir tveir aðilar sem eru taldir líklegastir til að bjóða eru ekki í sömu stöðu.

Á meðan Kenny Huang segir að það séu helmingslíkur á því að hann eignist félagið getur hópurinn á bakvið tilboð Yahya Kirdi frá Sýrlandi ekkert gert næstu vikuna.

Það er vegna fráfalls móður eins af þeim mönnum sem eru á bakvið hópinn, Sheikh Sultan bin Mohammed al-Qassimi. Öll þjóðin mun syrgja hana í eina viku þar sem hún er af konungsættum og því verður ekki hægt að ræða né ganga frá neinum viðskiptum næstu vikuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×