Innlent

Dómnum verður áfrýjað

Hjónin Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir.
Hjónin Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir.
Héraðsdómur Reykjavíkur segir að 155 milljóna króna afsláttur sem félagið Rauðsól hafi fengið af 1.500 milljóna greiðslu vegna kaupa á 365 miðlum hafi í raun verið gjöf til Rauðsólar.

Félaginu beri því að greiða 160 milljónir króna til þrotabús Íslenskrar afþreyingar hf. - sem áður hét 365 hf.

Hilmar Gunnarsson, lögmaður Rauðsólar (365 miðla), segir að dómnum verði áfrýjað. „Við teljum að fullnaðaruppgjör hafi farið fram en ekki hafi verið tekið tillit til greiðslna sem fóru frá félaginu til Íslenskrar afþreyingar," segir Hilmar.

Rauðsól er félag sem stofnað var í október 2008 og var að fullu í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Félagið keypti í byrjun nóvember það ár alla hluti 365 hf. í félaginu 365 miðlar sem sett var saman utan um fjölmiðlahluta 365 samsteypunnar.

Auk þess sem Rauðsól yfirtók 4.400 milljóna króna skuldir með 365 miðlum átti Rauðsól að greiða 1.500 milljóna í peningum. Af þeim voru greiddar 1.340 milljónir króna. Rauðsól hefur í dag verið sameinuð 365 miðlum og nafni gamla móðurfélagsins var breytt úr 365 hf. í Íslensk afþreying sem síðar fór í þrot. Það var skiptastjóri þess þrotabús sem stefndi Rauðsól (365 miðlum) fyrir dóm til að fá samningnum um áðurnefndan afslátt rift.

Fyrirsvarsmenn 365 miðla sögðu að afslátturinn hefði byggst á því að staða félagsins við söluna til Rauðsólar hefði verið verri en talið var. Því hafnar héraðsdómur. „Sömu lykilstjórnendur voru í báðum félögum og sátu þeir stjórnarfundi og undirrituðu samninga þá er deilt er um í máli þessu. Það var því hluti af starfsskyldum þeirra og ábyrgð að byggja samninga sína á fullnægjandi upplýsingum," segir í dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×