Enski boltinn

John Terry óttast það að vera lengi frá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry, fyrirliði Chelsea.
John Terry, fyrirliði Chelsea. Mynd/AP
John Terry, fyrirliði Chelsea, er meiddur og segist óttast það að vera frá í marga mánuði vegna þeirra. Hann missti af tapi Chelsea á móti Sunderland um helgina og verður ekki með enska landsliðinu á móti Frökkum á morgun.

„Ég verið að glíma við verk sem gengur niður allan fótinn frá mjöðminni og niður í kálfa," sagði John Terry í viðtali við Daily Mail.

„Þetta byrjaði undir lok síðasta tímabils en af því að Chelsea-liðið var í baráttunni í bæði deild og bikar þá átti ég ekki möguleika á því að hvíla mig eða sleppa leikjum. Síðan fór ég strax á HM með enska landsliðinu," segir Terry.

„Ég fékk þriggja vikna hvíld eftir HM og ég hélt að þetta myndi lagast á þeim tíma. Þetta hefur síðan versnað og versnað. Ég hef getað þolað þetta hingað til en núna get ég ekki haldið svona áfram," sagði Terry.

„Ég er vanur að spila meiddur í 7 af 10 leikjum en núna get ég ekki meira. Ég þarf að taka mér nokkra vikna hvíld, hitta sérfræðinga og finna hvað er að mér," sagði Terry.

„Ég verð ekki með á móti Birmingham City en það er ekki ljóst hversu lengi ég verð frá. Þetta gætu verið nokkrar vikur en þetta gætu líka orðið nokkrir mánuðir, hver veit," sagði Terry.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×