Íslenski boltinn

Andri Marteinsson: Langhlaup en ekki spretthlaup

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mynd/Valli
Mynd/Valli

„Við áttum meira skilið úr þessum leik. Fyrsta markið hjá þeim kemur upp úr engu og það vantaði meiri gæði í okkar leik til að skapa færi. Þetta datt ekki fyrir okkur í dag,“ sagði Andri Marteinsson, þjálfari Hauka, eftir 3-0 ósigur gegn Selfossi á útivelli í kvöld.

„Við byrjuðum mjög vel og á venjulegum degi hefðum við séð betri afgreiðslu hjá mínum mönnum. Við færðum liðið framar eftir að þeir komust yfir en einbeitingaleysi í vörninni verður til þess að þeir klára leikinn.“

Arnar Gunnlaugsson lék ekki í síðari hálfleik vegna meiðsla en Andri veit ekki hvað er að hrjá kappann.

„Það er mjög líklegt að hann sé meiddur en ég þarf að ræða við sjúkraþjálfarann um hvað er að hrjá hann. Við töpum gæðum við að missa Arnar af leikvelli en aðrir leikmenn verða þá að stíga upp,“ segir Andri sem er ekki áhyggjufullur með byrjunina í mótinu.

„Ég er ekki áhyggjufullur en alls ekki glaður. Þetta er langhlaup en ekki spretthlaup og nóg eftir af tímabilinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×