Innlent

Aukningin í takt við áætlanir

EVE Online leikinn í Laugardalshöllinni í október í fyrra. 
Fréttablaðið/Vilhelm
EVE Online leikinn í Laugardalshöllinni í október í fyrra. Fréttablaðið/Vilhelm
Reiknað er með því að starfsmenn tölvuleikjafyrirtækisins CCP, sem meðal annars framleiðir netleikinn EVE Online, verði í lok þessa árs rúmlega 620 talsins. Þetta kemur fram í auglýsingu sem fyrirtækið birti um helgina þar sem óskað var eftir 150 nýjum starfsmönnum.

Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, segir kall eftir auknum starfskrafti í takt við áætlanir fyrirtækisins um vöxt og aukningu umfangs, en fyrirtækið er nú með þrjá leiki í framleiðslu og er með skrifstofur í Newcastle, Atlanta og í Shanghaí.

„Þetta er samkvæmt áætlun sem við höfum unnið eftir síðustu þrjú ár,“ segir Hilmar Veigar og bætir við að fjöldi ráðninga nú hafi verið ákveðinn í október í fyrra. Helstu nýbreytnina nú segir hann vera hvað fyrirtækið auglýsi á áberandi hátt eftir nýjum starfskrafti, en það sé til þess að sem flest gott fólk viti af þeim.

Þá segir Hilmar engar áætlanir uppi um að skrá fyrirtækið á markað. Ekki væri tilefni til að lesa annað úr því að einnig hafi verið um helgina auglýst eftir „corporate controller“ (fyrirtækisstjóra sem starfar undir fjármálastjóra) með reynslu af hlutafjárútboðum annað en að CCP leitaðist ávallt við að ráða sem hæfast fólk með sem víðtækasta reynslu. - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×