Innlent

Leikskáld mótmæla niðurskurði á íslensku sjónvarpsefni

Stjórn Félags leikskálda og handritshöfunda mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á framleiðslu og innkaupum á innlendu efni sem boðaður er af útvarpsstjóra Páli Magnússyni. Stjórnin sendi frá sér ályktun þess efnis í dag og má lesa hér orðrétt:

Menningarlegar skyldur Ríkisútvarpsins eru ótvíræðar samkvæmt lögum um stofnunina. Fyrirhugaður niðurskurður er skýlaust brot gegn þeim lögum og verður ekki annað séð en með tillögum sínum hafi útvarpsstjóri viðurkennt getuleysi sitt til að stýra stofnuninni samkvæmt þeim fyrirmælum sem lögin fela honum. Félag leikskálda og handritshöfunda skorar á stjórnvöld að endurnýja yfirstjórn RÚV svo tryggja megi að stofnunin gegni menningarhlutverki sínu.

Íslensk þjóð stendur á tímamótum. Miklar breytingar eru í farvatninu og stórar tilfinningar ólga í samfélaginu. Skrásetning þessara atburða í heimildamyndum og túlkun tilfinninganna í leiknu innlendu sjónvarpsefni eru þjóðinni ekki einungis mikilvægur spegill í samtímanum heldur og ekki síður mikilvæg heimild komandi kynslóðum um þá tíma sem við nú lifum.

Niðurskurður RÚV á framleiðslu og innkaupum á innlendu leiknu efni og heimildarmyndum mun skilja eftir sig óbætanlega eyðu í sögu þjóðarinnar til framtíðar. Menningarleg skammsýni núverandi útvarpsstjóra á ekki að verða til þess. Félag leikskálda og handritshöfunda hvetur stjórnvöld til að standa vörð um menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins með þeim ráðum sem þeim eru tiltæk og til þess munu duga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×