Fótbolti

Heimsmeistarar Spánverja jöfnuðu í lokin á móti Mexíkó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Hernandez fagnar marki sínu í leiknum.
Javier Hernandez fagnar marki sínu í leiknum. Mynd/AP
Varamaðurinn David Silva (og nýr leikmaður Manchester City) tryggði Heimsmeisturum Spánverja 1-1 jafntefli í uppbótartíma á móti Mexíkó í gær þegar þjóðirnar áttustu við á hinum heimsfræga Azteca-velli í Mexíkó.

Vicente del Bosque, þjálfari Spánverja, hrósaði sínum fyrir leikinn þar sem margir leikmanna hans voru nýbyrjaðir að æfa eftir sumarfrí enda bara mánuður síðan að þeir unnu heimsmeistaratitilinn.

„Ég gef mínum leikmönnum 10 af 10 mögulegum því þeir kvörtuðu ekkert yfir mínútum sem þeir spiluðu," sagði Vicente del Bosque.

Javier Hernandez, hinn sjóðheiti leikmaður Manchester United, kom Mexíkó í 1-0 strax á 12. mínútu leiksins eftir að hafa sloppið einn í gegn á móti Iker Casillas og skorað örugglega.

David Silva jafnaði leikinn þegar voru komnar tvær mínútur fram í uppbótartíma eftir að hafa fengið stungusendingu frá Xavi.

Spánverjar urðu þar með enn einir heimsmeistararnir sem ná ekki að vinna sinn fyrsta leik eftir HM en það hefur ekki tekist hjá nýkrýndum heimsmeisturum síðan að Brasilíumenn unnu sinn fyrsta leik eftir HM-titilinn 1994.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×