Enski boltinn

Rooney: Stjórinn sannfærði mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney á æfingu með United í vikunni.
Wayne Rooney á æfingu með United í vikunni. Nordic Photos / Getty Images
Wayne Rooney, sem skrifaði undir fimm ára samning við Manchester United í dag, segir að það hafi verið Alex Ferguson sem hafi sannfært hann um að vera áfram hjá félaginu.

Málið er eitt hið stærsta sem komið hefur upp í knattspyrnuheiminum undanfarin ár. Á sunnudaginn var fyrst greint frá því að Rooney vildi fara frá United og það var svo staðfest á þriðjudaginn.

En nú hefur Rooney, að því virðist upp úr þurru, ákveðið að taka u-beygju og vera áfram í herbúðum félagsins.

„Ég er mjög ánægður með að hafa skifað undir nýjan samning við United," sagði Rooney.

„Ég hef talað við knattspyrnustjórann [Ferguson] og eigendurnar undanfarna daga og þeir hafa sannfært mig um að hér eigi ég heima," bætti hann við.

„Ég sagði [í yfirlýsingu minni] á miðvikudaginn að knattspyrnustjórinn væri snillingur og það er hans staðfasta trú og stuðningur sem gerði útslagið og sannfærði mig um að vera áfram."

„Ég er nú að skrifa undir nýjan samning í þeirri trú að stjórarnir, þjálfararnir, stjórnin og eigendurnir eru algjörlega staðráðnir í að United haldi í sína stoltu sigurhefð - sem er ástæða þess að ég kom upphaflega til félagsins."

„Ég er viss um að stuðningsmennirnir hafa orðið fyrir vonbrigðum með mig undanfarna viku miðað við það sem þeir hafa lesið og séð. En mínar áhyggjur snerust eingöngu um framtíðina. Stuðningsmennirnir hafa verið frábærir í minn garð síðan ég kom og það er nú undir mér komið að snúa þeim aftur á mitt band með frammistöðu minni inn á vellinum."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×