Enski boltinn

Redknapp búinn að senda Gareth Bale í frí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale.
Gareth Bale. Mynd/Nordic Photos/Getty
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, ætlar að passa upp á álagið á skærustu stjórnu liðsins en hann hefur ákveðið að gefa hinum frábæra Gareth Bale nokkra daga frí á ströndinni til þess að safna kröftum fyrir komandi leiki á móti Manchester United og Inter Milan.

Gareth Bale hefur farið á kostum á þessu tímabili og þrennan hans í seinni hálfleik á móti Inter Milan í Meistaradeildinni gleymist varla í bráð.

Hinn 21 árs gamli Bale fékk leyfi frá stjóranum til þess að fara í fjögurra daga frí en hann verður kominn til baka fyrir leikinn á móti Manchester United á laugardaginn.

„Það er gott að geta gefið Gareth nokkra daga í frí og ég held að strákurinn hafi virkilega þurft á því að halda. Hann verður frá í þrjá til fjóra daga en ég býst við honum aftur á fimmtudagsmorguninn," sagði Harry Redknapp.

„Hann var orðinn þreyttur enda hleypur hann ófáa kílómetrana í hverjum leik. Hann er með ótrúlega tölfræði. Hann er búinn að spila marga erfiða leiki bæði með Wales og með okkur," sagði Redknapp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×