Enski boltinn

Carragher: Fólk hefur verið að tala um að vinna deildina í mörg ár

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Jamie Carragher.
Jamie Carragher.
Jamie Carragher, leikmaður Liverpool, segir að það verði erfitt að vinna ensku úrvalsdeildina á sínum ferli. Eftir að hafa lent í öðru sætinu tímabilið 2008-09 hefur liðið verið í frjálsu falli og situr nú í fallsæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Carragher skrifaði undir tveggja ára samning í þessari viku en viðurkennir að væntingarnar hafi breyst hjá félaginu eftir erfiða mánuði. Hann segist þó vona að liðið geti bundið enda á langa bið eftir enska meistaratitlinum áður en hann leggur skóna á hilluna.

„Við erum nógu raunsæir til að vita hvar við stöndum sem knattspyrnufélag í dag. Ég verð að hafa trú á því að nýju eigendurnir muni snúa þessu við á næstu tveimur árum og vonandi mun Liverpool geta unnið titilinn en ég er nógu raunsær til að vita að það verður mjög erfitt," sagði Carragher í viðtali við News of the World.

„Fólk hefur verið að tala um að vinna deildina í mörg ár en nú held ég að verkefnið ætti bara að komast ofar í töflunni. Vonandi getum við unnið einhverja titla í framtíðinni."

Hann segir að endalokin á eigendaskiptum muni skila betri stöðuleika.

„Að minnsta kosti eru eigendamálin útkljáð núna og það mun skila stöðugleika til langs tíma. Ef liðið mun ekki vinna titil á meðan ég er enn leikmaður þá verð ég bara ánægður ef nýju eigendunum tekst að láta það gerast stuttu eftir að ég hætti. Ég verð kannski ekki inni á vellinum en það verður enginn hamingjusamari fyrir hönd stuðningsmannanna heldur en ég," sagði Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×