Íslenski boltinn

Andri: Ég átti þetta mark

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Anton

Andri Ólafsson var kampakátur með 3-0 sigur sinna manna í ÍBV á Haukum í fyrsta leik fjórðu umferðar Pepsi-deildar karla í dag.

Annað mark ÍBV virtist í fyrstu vera sjálfsmark Þórhalls Dans Jóhannssonar, fyrirliða Hauka, en Andri þvertekur fyrir það.

„Boltinn fór af honum, í mig og í markið. Ég átti þetta mark," sagði hann í léttum dúr. Andri átti svo skalla í slá stuttu síðar en kláraði leikinn með þriðja marki ÍBV sem kom stundarfjórðungi fyrir leikslok.

„Þrátt fyrir allt fannst mér í raun ekkert að frétta í þessum leik," sagði Andri. „En svo datt inn eitt mark hjá okkur og svo annað strax á eftir. Þá var þetta orðið hrikalega erfitt fyrir Haukana en ég er mjög ánægður."

„Mörkin okkar voru flott og komu eftir að við náðum að spila vel saman. Við áttum svo að klára leikinn þegar ég skallaði í slána og bara valta yfir þá. En við hleyptum þeim aftur inn í leikinn og hefðum getað fengið á okkur mark."

Englendingurinn James Hurst lagði upp síðara mark Andra í leiknum en hann hefur þótt leika afar vel í stöðu vinstri bakvarðar hjá ÍBV.

„Við erum einfaldlega komnir með hörkumenn í báða bakvarðastöðurnar og það sést á spilinu okkar hvað það munar miklu um það. Þetta er strákur sem á eftir að fara langt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×