Íslenski boltinn

Ólafur: Það var algjör klaufaskapur að gefa frá sér toppsætið svona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, þurfti að horfa upp á sína menn kasta frá sér tveimur stigum á lokamínútunum á móti Fram á Fylkisvellinum í kvöld. Fylkir var 2-0 yfir þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Sigur hefði komið Fylki í efsta sæti Pepsi-deildarinnar.

„Þetta var algjör óþarfi. Einbeiting leikmanna í dekkingu í tveimur hornum var okkur að falli. Menn eru ekki að vinna þá vinnu sem þeir eiga að gera í hornum. Það var algjört klaufaskapur að gefa frá sér toppsætið svona. Þetta er ósköp einfalt mál. Menn eiga að dekka mennina sína. Einfaldara verður það ekki í fótbolta," sagði Ólafur.

Framliðinu gekk illa að opna Fylkisvörnina í dag en það voru helst föstu leikatriðinu sem voru þeim erfið. „Þeir gerðu sitt í dag úr föstum leikatriðum en annað var í fínu lagi hjá okkur," sagði Ólafur.

„Það er drullusvekkjandi að sitja uppi með eitt stig eftir svona leik. Við vorum með þrjú stig í höndunum nánast í 90 mínútur. Það verður að koma í ljós hvernig mínir menn bregðast við því í næstu leikjum en vonandi eru þeir menn til þess að tækla það almennilega," sagði Ólafur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×