Íslenski boltinn

Ólafur: Menn skyldu varast að halda að FH-ingar séu dottnir í einhvern skít

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, líflegur á línunni.
Ólafur Kristjánsson, líflegur á línunni. Fréttablaðið
Breiðablik tekur á móti FH í stórleik í Kópavoginum í kvöld. Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Blika, segir að liðið eigi „slatta inni“, en liðið hefur landað fjórum stigum það sem af er sumri.

Ólafur býst við fjörugum leik í kvöld þar sem bæði lið reyna að sækja sigurinn. „Við munum nálgast leikinn á sama hátt og við höfum gert áður, við höfum ágæta reynslu af því,“ sagði Ólafur aðspurður hvort hann ætli að beita sömu taktík og ÍBV gerði gegn FH og sækja stíft frá byrjun.

„Við verðum aggressívir á þá. Þeir eru góðir en þeir eru kannski í smá sárum núna,“ sagði Ólafur sem skýrir höktið á FH-vélinni með fjarveru lykilmanna.

„Þeir hafa kannski hökt meira núna en oft áður en þeir eiga fullt af góðum strákum og þeir njóta góð af því að hafa spilað sama leikstíl í langan tíma. Menn skyldu varast að halda að FH hafi dottið í einhvern skít núna,“ sagði Ólafur.

Þjálfarinn er nokkuð sáttur með spilamennsku sinna manna það sem af er sumri. „Ég var ánægður með síðasta leik heilt yfir og langa kafla gegn Fram. Við hefðum svosem viljað vera með fleiri stig en það er ekkert sem við grátum. Við eigum slatta inni,“ sagði Ólafur.

Leikur Breiðabliks og FH hefst klukkan 20.00 í kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsending hefst fimmtán mínútum fyrir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×