Fótbolti

Leikmenn Tógó vilja spila í Afríkukeppninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emmanuel Adebayor skömmu eftir skotárásina.
Emmanuel Adebayor skömmu eftir skotárásina. Nordic Photos / AFP
Þrátt fyrir að hafa lent í skotárás í fyrradag vilja nú leikmenn landsliðs Tógó taka þátt í Afríkukeppni landsliða sem hefst í Angóla í dag.

Í gær bárust fregnir af því að leikmennirnir væru á leið til síns heima og hefur forsætisráðherra landsins, Gilbert Houngbo, krafist þess að landsliðið taki ekki þátt í mótinu.

Emmanuel Adebayor, fyrirliði landsliðs Tógó og leikmaður Manchester City, var fyrst sagður vilja snúa aftur til Bretlands hið fyrsta en vill nú spila svo að árásin bitni ekki á mótinu öllu.

Þrír létust í skotárásinni á föstudag - bílstjóri, þjálfari og fjölmiðlafulltrúi. Nokkrir aðrir særðust og þar af tveir leikmenn.

Samkvæmt dagskrá mótsins á Tógó að leika við Gana á morgun og virðist enn óákveðið hvort að af leiknum verði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×