Enski boltinn

Breyttar áherslur hjá Wenger í enska deildarbikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, notar Theo Walcott væntanlega í kvöld.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, notar Theo Walcott væntanlega í kvöld. Mynd/AP
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er búinn að ákveða það að breyta um áherslur í enska deildarbikarnum. Wenger segist vera hættur að nota unglingaliðið í keppninni og ætli þess í stað að nota sitt besta lið í öllum keppnum.

Wenger ætlar að nota leikmenn úr aðalliðinu þegar Arsenal mætir Newcastle í enska deildarbikarnum á St James' Park í kvöld. Theo Walcott, Nicklas Bendtner, Kieran Gibbs og Laurent Koscielny verða væntanlega allir með í leiknum.

Wenger braut reglu sína í síðustu umferð enska deildarbikarsins þegar Arsenal sló út Tottenham en hann tilkynnti það á hluthafafundi félagsins á dögunum að hann ætlaði að berjast um alla titla með sínu besta mögulega liði.

„Við erum með stóran hóp og ég hef að við höfum næginlega gott lið til þess að vinna titla. Þess vegna tel ég að við eigum að reyna að komast eins langt og mögulegt er. Við erum á góðum skriði og þurfum að halda því áfram," sagði Arsene Wenger.

„Við viljum allir enda biðina eftir titli og það eina sem ég get lofað er að við gerum okkar besta í hverri keppni," sagði Wenger en hann mun þó hvíla Cesc Fábregas, Marouane Chamakh og Samir Nasri í leiknum í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×