Enski boltinn

Sunderland missir miðvarðaparið í meiðsli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Turner, leikmaður Sunderland.
Michael Turner, leikmaður Sunderland. Nordic Photos / Getty Images
Útlit er fyrir að Sunderland verði án tveggja sterkra varnarmanna á næstunni en þeir Titus Bramble og Michael Turner eru báðir meiddir.

Bramble þarf að gangast undir aðgerð vegna hnémeiðsla og verður frá keppni næstu sex vikurnar.

Þá hefur komið í ljós að Turner meiddist einnig á hné í leiknum gegn Everton á mánudagskvöldið og verður hann frá í dágóðan tíma.

Bramble missti af leiknum gegn Everton en þá var óljóst hversu lengi hann yrði frá. Hann hefur verið fastamaður í liði Sunderland og spilað sem miðvörður við hlið Turner.

„Þetta eru hræðilegar fréttir," sagði Steve Bruce, stjóri Sunderland, um meiðsli Turner. „Hann meiddist þegar hann skall á stönginni á mánudaginn og skaddaði þar með liðbönd í hnénu."

„Hann mun hitta sérfærðing í dag en ég hef frekar trú á því að hann verði í frá í einhverja mánuði í stað nokkura vikna. Það er mikið áfall fyrir okkur."

„Ég vona bara að þeir sem koma inn í þeirra stað standi sig jafn vel og þeir hafa gert í haust."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×