Enski boltinn

Eiður Smári skoraði í öðrum leiknum í röð - Tottenham í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen fagnar marki sínu í kvöld.
Eiður Smári Guðjohnsen fagnar marki sínu í kvöld. Mynd/AFP
Eiður Smári Guðjohnsen skoraði í öðrum leiknum sínum í röð þegar Tottenham tryggði sér sæti í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar með 3-1 sigri á Fulham á White Hart Lane í kvöld. Tottenham mætir Portsmouth, í undanúrslitaleiknum á Wembley 11. apríl næstkomandi.

Tottenham var 0-1 undir í hálfleik en snéri leiknum við á augabragði með því að skora þrjú mörk á fyrstu tuttugu mínútunum í seinni hálfleik.

Bobby Zamora kom Fulham yfir á 17. mínútu eftir hraða sókn og frábæran undirbúning frá Damien Duff. Skömmu áður hafði Eiður Smári spilað Luka Modric í gegn en Króatanum tókst ekki að nýta sér það.

Harry Redknapp gerði tvær breytingar í hálfleik og það tók David Bentley ekki nema tvær mínútur að jafna leikinn. Aukaspyrna Bentley utan af vinstri kanti sigldi þá alla leið í fjærhornið án þess að nokkur kæmi við boltann.

Roman Pavlyuchenko kom síðan inn á fyrir Vedran Corluka sem meiddist og var búinn að koma Tottenham í 2-1 aðeins sex mínútum síðar eftir sendingu frá David Bentley.

Eiður Smári skoraði síðan þriðja markið á 66. mínútu þegar hann lék á Mark Schwarzer markvörð eftir að hafa fengið sendingu frá Luka Modric inn fyrir vörnina. Eiður Smári batt þar enda á frábæra sókn og sýndi mikið harðfylgi þegar hann skoraði.

Tottenham-Fulham 3-1 (0-1)

0-1 Bobby Zamora (17.), 1-1 David Bentley (47.), 2-1 Roman Pavlyuchenko (59.), 3-1 Eiður Smári Guðjohnsen (66.).












Fleiri fréttir

Sjá meira


×