Sport

Sigurinn ótrúlega góður árangur hjá Halldóri

KG skrifar
Halldór Helgason náði góðum árangri í Aspen um helgina.
Halldór Helgason náði góðum árangri í Aspen um helgina. fréttablaðið/afp
„Þetta er alveg rosalega góður árangur. Erlendis er fólk að tala um þá bræður sem bestu snjóbrettakeppendur heims," segir Linda Björk Sumarliðadóttir, formaður Brettafélags Íslands. Halldór Helgason, átján ára gamall Akureyringur, vann á sunnudagsnótt til gullverðlauna í Big Air-keppninni, sem gengur út á að framkvæma tæknilega besta stökkið af stórum palli, á Winter X-Games-mótinu í Denver í Aspen í Bandaríkjunum. Mótið er það stærsta sinnar tegundar í heimi þar sem keppt er í jaðaríþróttum.

Halldór vann Big Air-keppnina með fullu húsi stiga og segir Linda Björk það vera hreint ótrúlega góðan árangur.

Halldór var nýlega kosinn nýliði ársins hjá tímaritinu Transworld Snowboarding, sem er mest lesna snjóbrettatímarit heims. Bróðir Halldórs, hinn 22 ára Eiríkur „Eiki" Helgason, fékk lesendaverðlaun blaðsins við sama tilefni.

Í nótt keppti Halldór svo til úrslita í snjóbrettagrein sem kallast slopestyle. Í þeirri grein fara keppendur í gegnum nokkra stökkpalla.

Í undanúrslitunum í þeirri grein hlaut Halldór 93 stig og var Linda ekki í nokkrum vafa um að hann myndi standa sig vel í lokakeppninni.

„Bræðurnir eru miklir íþróttamenn og þjóðin hefur alveg jafn mikla ástæðu til að vera stolt af þeim og landsliðinu í handbolta," segir Linda Björk Sumarliðadóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×