Enski boltinn

Bandaríkjaferð Portsmouth varð að martröð

Elvar Geir Magnússon skrifar
Steve Cotterill, stjóri Portsmouth.
Steve Cotterill, stjóri Portsmouth.

Hrakfarir Portsmouth ætla engan enda að taka en æfingaferð liðsins í Bandaríkjunum hefur snúist út í martröð. Frestun á flugi, þrumuveður og týndar töskur hafa heldur betur sett strik í reikninginn.

Portsmouth var sett í greiðslustöðvun í fyrra og féll úr ensku úrvalsdeildinni. Liðið skellti sér til Bandaríkjanna til að undirbúa sig undir baráttuna í Coca-Cola deildinni og steinlá 4-0 fyrir DC United í æfingaleik í Washington.

„Engin æfing, enginn svefn, engar treyjur - Það er ekki furða að Portsmouth steinlá fyrir DC United," segir í umfjöllun á heimasíðu Portsmouth þar sem sagt er að liðið hafi ekki getað mætt í verra standi í leikinn.

Leikmenn enska liðsins þurftu að leggja á sig 27 klukkustunda ferðalag þar sem tengiflugi var frestað vegna þrumuveðurs. Margar klukkustundir fóru í bið í rútu fyrir utan flugvöllinn í Chicago en þetta er í annað sinn í þessari tveggja vikna æfingaferð sem þeir verða strandaglópar.

Um helmingur leikmannana sem knattspyrnustjórinn Steve Cotterill hafði úr að velja hafði ekki leikið aðalliðsleik þegar kom að þessari ferð. Þá þurftu tveir leikmenn að yfirgefa hópinn og halda heim á leið vegna meiðsla, annar þeirra er markvörðurinn Jon Stewart sem líklega er fótbrotinn.

Hópurinn náði fjögurra tíma svefni fyrir leikinn gegn DC United og náði ekkert að æfa í þrjá daga. Til að kóróna vitleysuna týndust 14 töskur í ferðalaginu, þar á meðal búningasett liðsins. Liðið þurfti því að fá varabúninga DC United lánaða fyrir leikinn!

Enn meiru salti var stráð í sárin en leikurinn fór fram í 38 gráðu hita, lenti á heitasta degi ársins í Washington. Markvörðurinn Jamie Ashdown meiddist svo í leiknum og Hayden Mullins fékk að líta rauða spjaldið eftir rifrildi við mótherja.

Leikmenn Portsmouth verða líklega guðs lifandi fegnir þegar þeir komast heim til Englands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×