Enski boltinn

Hodgson heyrði vel sönginn um Dalglish úr stúkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson, stjóri Liverpool.
Roy Hodgson, stjóri Liverpool. Mynd/AP
Roy Hodgson, stjóri Liverpool, ætlar að halda áfram að gera sitt besta í sínu starfi en segist muni sætta sig við það ákveði forráðamenn félagsins að kalla á nýjan mann í stjórastólinn.

Liverpool hefur aðeins fengið eitt stig út úr leikjum við Wigan og Stoke eftir að hafa unnið glæsilegan sigur á Chelsea í leiknum þar á undan.

„Ef að félagið vill að einhver annar taki við þessu starfi þá verð ég bara að sætta mig við það. Okkur vantar leikmenn, það vita allir og því höfum við ekki marga möguleika í stöðunni," sagði Roy Hodgson.

Hodgson viðurkennir að hafa heyrt vel í stuðningsmönnum Liverpool í tapleiknum á móti Stoke þar sem að þeir kölluðu ákaft eftir því að fá Kenny Dalglish aftur í stjórastólinn.

„Stuðningsmennirnir mega kalla eftir hverjum sem þeir vilja en það er alltaf undir félaginu að ákveða hvað það vill gera. Ég get ekkert gert í því og get aðeins haldið áfram að gera eins vel og ég get í þessum kringumstæðum," sagði Hodgson og bætti við:

„Eg get ekki látið það hafa áhrif á mig í hvert skipti sem stuðningsmenn okkar kalla á nýjan mann í brúnna. Við eigum líka milljón stuðningsmenn," sagði Hodgson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×