Lífið

Nýir húsbændur á Mótel Venus

Veigar Freyr Jökulsson (til hægri) og Gústaf Hannibal Ólafsson hafa tekið við rekstri Hótels Brúar í Borgarfirðinum.
Veigar Freyr Jökulsson (til hægri) og Gústaf Hannibal Ólafsson hafa tekið við rekstri Hótels Brúar í Borgarfirðinum.
„Staðurinn þurfti mikilla breytinga við og nafnabreyting var stór hluti af því, til að gefa staðnum nýjan blæ,“ segir Veigar Freyr Jökulsson, sem hefur tekið við rekstri Hótels Brúar í Borgarfirðinum, sem hét áður Mótel Venus.

„Við erum búnir að vera sveittir fram á nætur að gera staðinn huggulegan,“ segir Veigar Freyr, sem hélt opnunarhóf um síðustu helgi eftir að hafa sent út boðskort til Borgarness og nágrennis. „Það voru hérna vel yfir hundrað manns sem mættu og það voru allir svaka hrifnir og ánægðir með að það sé eitthvað að gerast á þessum stað. Húsið er rosaflott en fólkið fékk einhvern kjánahroll virðist vera af gamla nafninu og fannst það aldrei eiga neitt erindi hingað.“

Gamli staðurinn var auglýstur sem leiðin að rómantísku kvöldi og orðrómur var lengi vel uppi um að fólk notaði hann til framhjáhalds. Veigar segir þetta skemmtilega sögu en engan flugufót vera fyrir henni. „Ég finn ekki annað út en að nafnið eitt hafi skapað þessa sögu, þessi blanda af þessum tveimur orðum.“

Veigar, sem rekur staðinn með hálfbróður sínum Gústafi Hannibal, segir að Hótel Brú verði af öðrum toga en forveri sinn. „Þetta verður alvöru veitingastaður. Við ætlum ekki að fara í þennan hamborgara­slag við Borgarnes. Þetta er kjörið fyrir vinnuhópa, árshátíðir og annað álíka á veturna,“ segir hann og bætir við að umhverfið skemmi ekki fyrir: „Þetta er rétt við þjóðveginn. Þú keyrir hundrað metra og ert kominn í algjöra paradís hérna í Hafnarskógi. Útsýnið er alveg óborganlegt hérna yfir Borgarfjörðinn.“

Áhugasamir geta skoðað síðuna hotelbru.is vanti þá frekari upplýsingar. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.