Íslenski boltinn

Lúkas rekinn frá Grindavík

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Lúkas Kostic.
Lúkas Kostic.

Lúkas Kostic hefur verið rekinn frá Grindavík eftir aðeins fjóra leiki í Pepsi-deildinni. Þetta er í annað sinn sem Lúkas er rekinn snemma en árið 1997 var hann rekinn frá KR eftir fimm leiki.

Grindavík hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum á mótinu og vermir botnsæti deildarinnar. Lúkas tók við Grindavík í maí í fyrra.

Þetta er annað árið í röð sem Grindvíkingar skipta um þjálfara í upphafi móts. Í fyrra hætti Milan Stefán Jankovic með liðið eftir þrjá leiki. Þá var liðið einnig á botni deildarinnar, stigalaust.

Fréttatilkynning Grindvíkinga:

"Stjórn knattspyrnudeildar Grindavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Lúkas Kostic stígi til hliðar sem þjálfari liðsins.

Stjórn knattspyrnudeildar þakkar Lúkas Kostic fyrir gott samstarf og metnaðarfullt starf í þágu félagsins.

Stjórn knattspyrnudeildar vinnur nú að því að ráða nýjan þjálfara og verður tilkynnt síðar hver það verður."

Næsti leikur Grindavíkur er gegn FH á mánudaginn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×