Enski boltinn

Redknapp ósáttur við tímasetninguna á Ungverjaleiknum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Harry Redknapp er ekki kátur kall.
Harry Redknapp er ekki kátur kall.

„Getur einhver sagt mér af hverju það er landsleikur í sömu viku og tímabilið hefst?" spyr Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham. Hann er allt annað en sáttur við tímasetninguna á vináttulandsleik Englands og Ungverjalands sem verður þann 11. ágúst næstkomandi.

„Leikmenn voru saman í allt sumar á HM. Þeir eru örugglega allir komnir með leið á hvor öðrum," segir Redknapp.

Hann gagnrýnir ekki bara enska knattspyrnusambandið heldur líka skipulagið hjá stjórn Tottenham. Það hefur verið nóg að gera hjá Tottenham á undirbúningstímabilinu.

Liðið lék þrjá leiki á átta dögum í æfingaferð í Bandaríkjunum, mætti svo heim og steinlá 4-1 í æfingaleik gegn Villareal. Þar á eftir fylgir ferð til Portúgal þar sem liðið mætir Benfica og svo heimaleikur gegn Fiorentina.

„Þessi dagskrá okkar er algjört brjálæði. Ég fæ engar æfingar með liðinu. Það eina sem við gerum er að spila og svo fylgir endurheimt þar á eftir. Þetta er ekki eðlilegt undirbúningstímabil," segir Redknapp.

„Svo rétt fyrir fyrsta leik hjá okkur er landsleikur. Rétt áður en við mætum Manchester City og leikum svo Evrópuleik nokkrum dögum síðar. Af hverju? Hver er tilgangurinn? Tilgangslaus æfingaleikur. Þegar við eigum að vera að undirbúa okkur fyrir fyrsta leik tímabilsins verða einhverjir leikmenn ekki til staðar. Maður verður að krossleggja fingur og vona að það komi enginn til baka meiddur."

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×