Enski boltinn

Bebe fær tíma til að læra ensku og inn á enska boltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, fékk góð ráð frá Carlos Queiroz.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, fékk góð ráð frá Carlos Queiroz. Mynd/AFP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, ætlar að leyfa nýja portúgalska framherja liðsins, Bebe, að aðlagast hlutunum á Old Trafford áður en hann mun nota hann með aðalliðinu.

Það vakti mikla athygli þegar Manchester United keypti þennan óþekkta 20 ára portúgalska leikmann á miðvikudagskvöldið og borgaði sjö milljónir punda fyrir hann.

„Venjulega skoðum við leikmann í lengri tíma en við erum með góðan njósnara í Portúgal og við treystum honum. Önnur félög voru farin að sýna stráknum áhuga og við ákváðum bara að drífa í kaupunum," sagði Alex Ferguson.

„Við tókum skyndiákvörðun. Hann er ungur og við erum góðir í að vinna með ungum leikmönnum. Þetta er fljótur strákur, jafnfættur en jafnframt óslípaður leikmaður sem við þurfum að vinna mikið með," sagði Alex Ferguson.

„Hann talar enga ensku en við ætlum að ráða tungumálakennara til að bæta það sem fyrst. Það mikilvægasta í stöðunni er að gefa honum tíma til að aðlagast og það er engin ástæða til að flýta okkur í að taka hann inn í liðið því við erum með menn eins Nani, Valencia, Obertan, Cleverley og Giggs sem spila í hans stöðu," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×