Enski boltinn

Liverpool íhugar tilboð í félagið frá Hong Kong

Elvar Geir Magnússon skrifar
Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Liverpool.
Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Liverpool.

Liverpool gæti á næstu dögum komist í eigu kínversks viðskiptafyrirtækis. Þetta hefur BBC á eftir heimildarmanni sínum sem sagður er úr innsta hring.

Kenny Huang, æðsti maður fyrirtækisins QSL Sports sem staðsett er í Hong Kong, vill ná yfirráðum hjá Liverpool en enska félagið hefur verið á sölulista síðan í apríl.

„Það þarf að ganga frá málum áður en félagaskiptaglugginn lokar 31. ágúst. Huang hefur lagt fram tilboð og ætti að fá svar á næstu dögum, hann er bjartsýnn á að það verði jákvætt," sagði heimildarmaður BBC.

Huang býðst til að hreinsa skuldir Liverpool til Royal Bank of Scotland og færa knattspyrnustjóranum Roy Hodgson pening til leikmannakaupa. Þá er stefnan einnig sett á að hefja byggingu nýs leikvangs eins fljótt og hægt er.

Huang reyndi að kaupa félagið 2008 en dró sig út þar sem hann taldi að það væri metið á of mikinn pening.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×