Enski boltinn

Wenger neitar því að Fabregas hafi spilað fótbrotinn á móti Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas liggur hér meiddur í grasinu.
Cesc Fabregas liggur hér meiddur í grasinu. Mynd/AP
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur hafnað þeim sögusögnum að fyrirliðinn Cesc Fabregas hafi þegar verið fótbrotinn þegar hann spilaði leikinn á móti Barcelona í Meistaradeildinni í vikunnu. Cesc Fabregas mun ekkert spila meira með á tímabilinu eftir að í ljós kom að hann er með sprungu í dálknum.

Cesc Fabregas var mjög tæpur á því að ná að spila Barcelona-leikinn eftir að hafa lent í harðri tæklingu frá Craig Gardner,leikmanni Birmingham, helgina áður.

Cesc Fabregas meiddist í Barcelona-leiknum þegar hann fiskaði vítið sem hann sjálfur skoraði jöfnunarmarkið á lokamínútu leiksins. Carles Puyol, fyrirliði Barcelona, steig þá inn í Fabregas um leið og Fabregas ætlaði að skjóta með þeim afleiðingum að Fabregas sparkaði í Puyol.

Fabregas var samt svo einbeittur í að nýta vítið að hann virtist ekki uppgötva meiðslin almennilega fyrr en hann var að hlaupa til baka með boltann eftir að hafa náð í hann í markið.

„Það voru einhverjir að ýja að því að hann hafi spilað fótbrotinn, en það er ekki satt," sagði Arsene Wenger. „Það voru sjálfstæðir læknar sem rannsökuðu hann fyrir leikinn á móti Barcelona og röntgenmyndirnar staðfestu að það var allt í lagi með beinið og að hann hafi aðeins verið með beinmar," segir Wenger.

„Ég er hundrað prósent öruggur á þessu því ég leitaði eftir staðfestingu hjá læknaliði okkar. Cesc fór í rannsókn um morguninn á leikdag og svo aftur í upphituninni fyrir leikinn," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×