Íslenski boltinn

Ingólfur: Veit ekki hver stuðullinn var á Lengjunni

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Ingólfur Þórarinsson
Ingólfur Þórarinsson

„Ég veit ekki hver stuðullinn var á Lengjunni en þetta er vissulega gríðarlega óvæntur sigur. Það var ótrúlega stemmning í hópnum fyrir leikinn og við trúðum því að við gætum náð sigri," sagði Ingólfur Þórarinsson miðjumaður hjá Selfossi sem skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild úr víti í 1-2 sigri Selfoss á KR í kvöld.

„Það var auðvitað erfitt að standa yfir boltanum og ég var búinn að lesa að maður á ekki að hugsa um að klikka vítinu. Litli bróðir vildi fá að taka vítið en ég gat ekki látið það viðgangast, vildi ekki láta hann ganga í gegnum það ef hann myndi svo klúðra vítinu," segir Ingólfur sem var gríðarlega ánægður með stuðning Selfyssinga er fjölmenntu í Frostaskjólið í kvöld.

„Þessi sigur gefur okkur sjálfstraust og við þurfum ekki að vera smeykir við nein lið. Við fengum frábæran stuðning úr stúkunni og það hjálpar mikið í svona leikjum."

Selfoss mætir Haukum í nýliðaslag á heimavelli í næsta leik og þar er krafa um þrjú stig. „Við reynum að gera okkar besta í þeim leik og ætlum okkur klárlega að hirða þrjú stig," sagði Ingólfur áður en hann hélt inn í fögnuð Selfyssinga á KR-velli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×