Enski boltinn

Gengið vonandi frá sölu Liverpool fyrir mánaðarlok

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Broughton og Roy Hodgson.
Martin Broughton og Roy Hodgson. Nordic Photos / Getty Images

Martin Broughton, stjórnarformaður Liverpool, vonast til þess að hægt verði að ganga frá sölu félagsins fyrir lok ágústmánaðar.

Liverpool er nú í eigu Bandaríkjamannanna Tom Hicks og George Gillett en þeir vilja selja félagið. Broughton var fenginn til þess að taka við stjórnarformennsku í apríl síðastliðnum í þeim tilgangi að sjá um söluferlið.

Broughton sagði í samtali við Guardian-blaðið í dag að þó nokkur tilboð hafi borist stjórninni en nú síðast lýsti kínverskur viðskiptamaður, Kenny Huang, áhuga á því að kaupa Liverpool.

Huang gaf í skyn að hann myndi eignast ráðandi hlut í félaginu með því að taka yfir skuld Liverpool hjá Royal Bank of Scotland-bankanum upp á litlar 237 milljónir punda. Broughton sagði bankann þó ekkert að hafa segja um söluna.

„Það er stjórn Liverpool sem stýrir söluferlinu. Þau tilboð sem hafa farið beint til bankans hafa komið á mitt borð. Og þau hafa verið nokkur," sagði Broughton.

„En það er enn markmið okkar að ganga frá sölunni áður en félagaskiptaglugginn lokar um mánaðamótin. Það er takmarkið en ekki lokafrestur. Við munum halda áfram að því að vinna að þessu."

Huang virðist þó afar áhugasamur um að eignast Liverpool sem fyrst svo að Hodgson fái tíma til að kaupa nýja leikmenn til félagsins áður en félagaskiptaglugginn lokar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×