Íslenski boltinn

Ólafur: Erum að tjasla hópnum saman

Elvar Geir Magnússon skrifar
Alfreð Finnbogason er kominn af meiðslalistanum.
Alfreð Finnbogason er kominn af meiðslalistanum.

Það eru allar líkur á því að Alfreð Finnbogason og Kristinn Jónsson verði með Breiðabliki í kvöld þegar liðið heimsækir Grindavík. Blikar hafa verið að glíma við meiðsli síðustu vikur.

Guðmundur Kristjánsson og Guðmann Þórisson verða þó væntanlega ekki klárir í slaginn en Ólafur Kristjánsson, þjálfari liðsins, segir að þeir séu þó að skríða saman og ættu að vera orðnir leikfærir í næsta leik.

„Það er ólíklegt að Guðmundur og Guðmann geti tekið þátt í kvöld en við sjáum til hvernig það verður á eftir. Við erum að tjasla hópnum saman enda mikið um skrýtin meiðsli. Hefur verið mikið um höggáverka," segir Ólafur.

Ólafi lýst annars vel á leikinn í kvöld. „Þetta verða bara stálin stinn sem mætast. Maður veit ekki alveg hverju maður á von á. Við þurfum að ná okkur í þrjú stig og þeir þurfa það líka til að fikra sig frá botninum," segir Ólafur.

Leikur Grindavíkur og Breiðabliks verður flautaður á klukkan 19:15 en á sama tíma hefst leikur Þróttar og Fram. Fylgst verður með leikjunum á Boltavakt Vísis.


Tengdar fréttir

Gunnar: Þurfum að sækja stig í kvöld

„Við erum bara komnir í þá stöðu að við þurfum að sækja stig í kvöld, það er pottþétt. Helst þrjú," segir Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar. Hans menn mæta Fram í kvöld en Þróttarar sitja á botni deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×