Íslenski boltinn

Gunnar: Þurfum að sækja stig í kvöld

Elvar Geir Magnússon skrifar
Úr viðureign Þróttar og Fram í fyrra.
Úr viðureign Þróttar og Fram í fyrra.

„Við erum bara komnir í þá stöðu að við þurfum að sækja stig í kvöld, það er pottþétt. Helst þrjú," segir Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar. Hans menn mæta Fram í kvöld en Þróttarar sitja á botni deildarinnar.

„Fram er með hörkulið. Þeir sýndu okkur það í síðustu viku þegar þeir lönduðu sigri í Wales og komust áfram í Evrópukeppninni. Svo er ekki langt síðan þeir tóku KR-inga 3-0. Þeir virðast vera að ná takti í sinn leik svo við erum að fara að mæta hörkuliði," segir Gunnar. „Það er þannig í þessari deild að ef þú mætir einbeittur og menn eru til í að leggja mikið á sig þá eru ágætis líkur á að ná þremur stigum."

Þórður Steinar Hreiðarsson er að jafna sig á meiðslum en hann verður þó ekki með Þrótti í kvöld. „Hann er líklegur fyrir næsta leik. Þórður hefur verið okkar helsti varnarmaður og það hefur verið slæmt fyrir okkur að vera án hans síðan í annarri umferð," segir Gunnar.

Íþróttafréttamaðurinn Hjörtur Hjartarson leikur ekki með Þrótti í kvöld en hann var að fjalla um Landsmótið á Akureyri um helgina. „Hann er ekki með í kvöld enda var hann í öðrum verkefnum um helgina," segir Gunnar.

Auk viðureignar Þróttar og Fram mætast einnig Grindavík og Breiðablik í Pepsi-deildinni í kvöld. Báðir leikir hefjast 19:15 og verður fylgst grannt með gangi mála hér á Boltavaktinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×