Innlent

Atvinnulausum fjölgaði í ágúst

Alls voru 15.217 skráðir atvinnulausir hjá vinnumiðlunum í upphafi ágústmánaðar.fréttablaðið/gva
Alls voru 15.217 skráðir atvinnulausir hjá vinnumiðlunum í upphafi ágústmánaðar.fréttablaðið/gva

Atvinnulausum fjölgaði í ágústmánuði. Er það í fyrsta sinn sem þeim fjölgar frá því í mars síðastliðnum, samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun. Þetta kemur fram í morgunkorni Íslandsbanka.

Þeir sem voru skráðir atvinnulausir í ágústbyrjun voru 15.217 talsins. Nú, rúmlega mánuði síðar, eru þeir 15.480 og hefur því fjölgað um 263 á tímabilinu. Fjöldi atvinnulausra náði hámarki í lok mars, en þá töldust þeir 16.822.

Í morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að tveir þættir hafi verið að vegast á í þróun atvinnuleysis undanfarna mánuði. Annars vegar undirliggjandi efnahagsþróun, þar sem samdráttur hafi farið vaxandi og atvinnuleysi af þeim sökum færst í aukana. Hins vegar árstíðasveifla sem einkenni atvinnuleysi hér á landi, sem lýsi sér þannig að atvinnuleysið minnki að vori og yfir sumarmánuðina en aukist svo að hausti og fram eftir vetrinum. Ástæðan sé meðal annars árstíðabundin verkefnastaða fyrirtækja. Árstíðasveiflan hafi undanfarið haft betur og atvinnulausum fækkað, þrátt fyrir aukna dýpt samdráttar í efnahagslífinu.

Fram kemur að búist sé við að atvinnuleysi muni ná hámarki í mars eða apríl á næsta ári. Atvinnulausir gætu þá verið um 18.000 til 20.000 talsins, eða um tíu til tólf prósent af vinnuaflinu.- kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×