Erlent

Fæddi áttbura eins og að drekka vatn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Dr. Mandhir Gupta var mjög brugðið.
Dr. Mandhir Gupta var mjög brugðið. MYND/CNN

Kona í Kaliforníu fæddi áttbura í gærmorgun og kom læknum, sem bjuggust við sjö börnum, í opna skjöldu.

Sex sveinar og tvær meyjar bættust í hóp Kaliforníubúa á einu bretti eftir vel heppnaða keisaraskurðaðgerð á Keiser Permanente-sjúkrahúsinu í Bellflower í gær. Hópurinn er nokkuð brattur fyrir utan að þrjú systkinanna þurfa hjálp við öndun. Það er þó ekkert varanlegt að sögn lækna og má búast við að þar með séu fæddir fyrstu áttburar heims sem allir lifa.

Kona í Houston í Texas eignaðist áttbura árið 1998 en einn þeirra dó skömmu eftir fæðinguna. Fæðingin í gær tók ekki nema um fimm mínútur en undirbúningurinn var þeim mun viðameiri. Alls komu 46 starfsmenn sjúkrahússins að því með einum eða öðrum hætti að búa móðurina og væntanleg afkvæmi undir stóra daginn. Það sem kom þó mest á óvart var leynigesturinn, áttunda barnið, en læknar töldu sig fullvissa um að þeir væru að taka á móti sjö börnum.

Það mun þó ekki vera tekið út með sældinni að kasta réttri tölu á slíkan fjölda með hljóðsjá eina að vopni og gægðist því áttunda höfuðið óvænt út. Móðirin er gjörsamlega búin en heilsast vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×