Innlent

Fólki ráðlagt að vera ekki á ferli

Hjálparsveit skáta í Hveragerði og björgunarsveitin Mannbjörg í Þorlákshöfn eru nú í óða önn að ferja fólk af Hellisheiði en fjöldi bifreiða situr þar fastur. Björgunarsveitir af höfuðborgarsvæðinu munu einnig fara til aðstoðar á heiðinni. Búið er að loka Hellisheiði vegna ófærðar. Þrengslin eru enn opin en veður er slæmt þar. Björgunarfélag Vestmannaeyja var einnig kallað út fyrir skömmu í óveðursaðstoð. Mjög hvasst er í Eyjum þessa stundina og mun björgunarsveitin vera í viðbragðsstöðu á meðan það gengur yfir.

Samkvæmt upplýsingum frá Sigurði Ragnarssyni veðurfræðingi er stormur í Þrengslunum og gengur yfir með blindhríð. Veðrið verður komið norður á land í fyrramálið og þegar er orðið mjög illfært á Norðurlandi og fyrir vestan. Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur ítrekar því orð sín frá því fyrr í kvöld að það er ekkert ferðaveður á landinu í kvöld og í nótt.

Þá sendi lögreglan á Hvolsvelli tilkynningu til fréttastofu með þeirri ábendingu að fólk væri ekki á ferli í Vestur-Skafárfellssýslu vegna veðurs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×