Innlent

Hanna Birna greini frá tengslum við Björgólfsfeðga

Ólafur afhendir Hönnu Birnu lykla af skrifstofu borgarstjóra í ágúst 2008.
Ólafur afhendir Hönnu Birnu lykla af skrifstofu borgarstjóra í ágúst 2008.

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans, hyggst spyrja Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, um tengsl hennar við Samson Properties á fundi borgarráðs í dag. Ólafur vill meðal annars að hún upplýsi hvort hún hafi þegið fjárframlög frá félaginu.

Eignarhaldsfélagið Samson Properties var í eigu Björgólfsfeðga. Til stóð að félagið reisti húsnæði fyrir Listaháskóla Íslands á svokölluðum Frakkastígsreit við Laugaveg en framkvæmdirnar eru nú í óvissu.

Ólafur segir í bókun sem hann hyggst leggja fyrir borgarráð að Hanna Birna telji að til greina komi að falla frá áformum um byggingu Listháskólans þrátt fyrir að skipulagsráð hafi ekki fjallað um málið.

,,Getur verið að gerbreytt samningsstaða eigenda Samsonsamsteypunnar, sem eru þekktir vildarvinir Sjálfstæðisflokksins, ráði þessari hugarfarsbreytingu hjá borgarstjóra?" segir í bókun Ólafs.

Hanna Birna vann gegn málaefnasamningnum

Ólafur segir að í meirihlutatíð Sjálfstæðisflokks og F-lista árið 2008 hafi Hanna Birna gengið gegn ótvíræðum ákvæðum málefnasamnings flokkanna um varðveislu gamallar og heildstæðrar götumyndar Laugavegar.

,,Því spyr undirritaður hvort núverandi borgarstjóri hafi á sínum tíma verið undir þrýstingi frá vildarvinum Sjálfstæðisflokksins í Samson hópnum um að greiða götu þeirra í Listaháskólamálinu?"

Þá spyr Ólafur Hönnu Birnu hvort hún sé reiðbúin tilað upplýsa hvort hún hafi þegið fjárframlög í prófkjöri eða aðra styrki frá Björgólfsfeðgum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×