Enski boltinn

West Ham enn taplaust á árinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn West Ham fagna marki Mark Noble í dag.
Leikmenn West Ham fagna marki Mark Noble í dag. Nordic Photos / Getty Images
West Ham vann í dag 3-1 sigur á Fulham í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og kom sér þar með upp í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

David Di Michele, Mark Noble og Carlton Cole skoruðu mörk West Ham í dag en Paul Konchesky fyrir gestina í Fulham.

Þetta var fjórði sigur West Ham í síðustu fimm leikjum liðsins í bæði deild og bikar en West Ham tapaði síðast fyrir Aston Villa þann 20. desember síðastliðinn.

West Ham var í tíunda sæti fyrir leikinn en Fulham datt með tapinu niður í tíunda sætið.

Það var aðeins ein breyting gerð á byrjunarliðum liðanna - Craig Bellamy var fjarri góðu gamni og sagður kominn í verkfall hjá West Ham. David Di Michele tók stöðu hans í liðinu og var í sókn liðsins ásamt Carlton Cole.

Strax á sjöundu mínútu leiksins kom fyrsta markið. Lucas Neill átti háa sendingu inn á teig sem John Pantsil, varnarmaður Fulham, tók niður á bringuna og beint fyrir fætur di Michele sem átti ekki í vandræðum með að skora.

En Konchesky jafnaði metin með glæsilegu marki stundarfjórðungi síðar. Hann fékk boltann á eigin vallarhelmingi, óð upp völlinn og lét vaða af þrjátíu metra færi. Boltinn fór efst í markvinkilinn vinstra megin.

Leikar stóðu jafnir allt þar til á 60. mínútu. Þá gerðist Konchesky sekur um þau mistök á brjóta á Cole innan teigs og fékk West Ham þar með sitt fyrsta víti í deildarleik í tæpt ár. Noble klikkaði ekki og kom heimamönnum yfir úr vítinu.

Þriðja markið kom svo sextán mínútum síðar. Di Michele gaf góða sendingu á Cole sem kom hlaupandi inn í svæðið og sendi boltann framhjá markverði Fulham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×