Innlent

Vill að Eykt upplýsi um styrki til flokka

Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi ætlar að leggja fram tillögu þess efnis á borgarráðsfundi síðar í dag að skorað verði á byggingarfélagið Eykt að upplýsa um framlög sín og styrki til stjórnmálasamtaka sem buðu fram í síðustu borgarstjórnarkosningum. Þá vill Ólafur jafnframt að upplýst verði hvaða frambjóðendur í prófkjörum fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar fengu styrki frá félaginu og hvort aðrir styrkir hafi runnið til frambjóðenda og kjörinna fulltrúa í borgarstjórn á þessu kjörtímabili.

Tillagan er fram komin vegna frétta þess efnis að Eykt hafi verið fengið til að annast uppsteypu brunahúsanna svokölluðu í Austurstræti án þess að hafa átt lægsta tilboð í verkið. Framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Fonsa sakaði framsóknarmenn nýverið í fréttum Stöðvar 2 um pólitíska spillingu og sóðaskap í tengslum við útboðið og útilokaði ekki að málið yrði kært, en Fonsi átti lægsta tilboðið í verkið. Eykt átti næst lægsta tilboðið og fékk verkið þar sem tilboð Fonsa þótti ekki uppfylla reglur útboðsins.

Framkvæmdastjóri Fonsa sagði augljóst að útboðið hafi verið fyrirfram ákveðið og ljóst að Eykt ætti að fá verkefnið. Vísaði hann meðal annars til þess að Eykt hafi borgað í kosningasjóð framsóknarmanna á sínum tíma.

Þessu hafa Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, og Hallur Magnússon, formaður innkauparáðs Reykjavíkurborgar og fulltrúi framsóknarmanna í ráðinu, vísað á bug.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×