Innlent

Samningar Nýsis og Hafnarfjarðarbæjar í uppnámi

Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Samningar Nýsis og Hafnarfjarðarbæjar eru í ákveðnu uppnámi að sögn Lúðvíks Geirssonar bæjarstjóra. Um er að ræða samninga sem Hafnarfjarðarbær gerði við Nýsi um rekstur tveggja íþróttahúsa, leikskóla og grunnskóla sem félagið byggði. Lúðvík segir Hafnarfjarðarbæ hafa verið ósáttan við samningana frá upphafi og vonast til þess að niðurstaða náist fljótlega í málinu. Fasteignahluti Nýsis var tekinn til gjaldþrotaskipta fyrir skömmu.

„Þetta mál er í ákveðnu uppnámi þar sem skiptaráðendur eru komnir með eignirnar í sínar hendur. Það eru lánadrottnar Nýsis sem eru bankar og lífeyrissjóðir og þeir hafa óskað eftir að yfirtaka þessar eignir sem þeir geta ekki nema með okkar samkomulagi," segir Lúðvík.

Eignirnar sem um ræðir eru Lækjarskóli, Íþróttahús Lækjarskóla, Íþróttahús Bjarkar og leikskólinn Álfasteinn í Hafnarfirði.

Lúðvík segir bæinn hafa farið fram með ákveðnar kröfur um breytingar á einkaframkvæmdarsamningum sem gerðir voru á sínum tíma og eru bænum afar óhagstæðir að hans sögn.

„Við höfum alltaf verið mjög ósáttir við þá samninga og nú reynir á hvort samkomulag náist. Það hafa verið viðræður í gangi og ég var að gera bæjarráði grein fyrir þeim á mánudag. Við vonum að það náist niðurstaða í þessu máli sem fyrst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×