Íslenski boltinn

Þurfum að halda áfram og byggja á sigrinum

Ómar Þorgeirsson skrifar
Rafn Andri Haraldsson í leik með Þrótti.
Rafn Andri Haraldsson í leik með Þrótti.

Þróttarar fundu taktinn svo eftir var tekið gegn Breiðabliki í Pepsi-deild karla á dögunum og unnu 4-0 stórsigur. Þetta var annar sigurleikur Þróttara í deildinni í sumar og kom þeim upp úr botnsætinu.

Miðjumaðurinn snjalli, Rafn Andri Haraldsson, átti frábæran leik með Þrótturum og hann vonast til þess að liðið sé nú komið á beinu brautina eftir heldur dapurt gengi framan af sumri í Pepsi-deildinni.

„Þetta var bara frábær leikur hjá okkur og það gekk nánast allt upp sem við gerðum, hvort sem það var varnarlega eða sóknarlega. Það voru líka nokkrir nýir leikmenn sem spiluðu vel fyrir okkur í leiknum og koma sterkir inn í þetta. Við vorum samt ekkert að spila fáránlega illa fram að þessum leik en við höfum samt verið að fá á okkur alltof mikið af mörkum og ekki verið að skora nóg. Það breyttist sem betur fer í þessum leik og við vörðumst mjög vel sem lið, alveg frá fremsta manni til þess aftasta og náðum að sækja hratt á þá og það er styrkur okkar. Við erum með hraða stráka fram á við og við þurfum að halda áfram og byggja á sigrinum," segir Rafn Andri ákveðinn.

Þróttarar mæta Stjörnunni í Pepsi-deildinni í kvöld en þeir eiga ekki góðar minningar úr fyrri leiknum gegn Garðbæingum í sumar sem endaði með 0-6 rassskellingu á Valbjarnarvelli.

Rafn Andri segir Þróttara ætla að mæta ákveðna til leiks í þetta skiptið, annað en þeir gerðu í fyrri leiknum.

„Við ætlum klárlega að hefna fyrir það sem gerðist í fyrri leiknum. Við hefðum alveg eins getað sleppt því að mæta í þann leik, við vorum svo lélegir. Við eigum erfiða leiki gegn Stjörnunni og KR í næstu leikjum en við verðum bara að halda áfram. Það geta allir unnið alla í þessari deild og þeir sem mæta betur stemmdir í leikina, þeir vinna þá," segir Rafn Andri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×