Innlent

Óvíst hvort persónuafsláttur hækki

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. Mynd/Anton Brink
Óvíst er hvort að persónuafsláttur hækki um næstu áramót líkt og kveðið er á um í samningum. Til greina kemur að setja á legg margþrepa skattkerfi. Þetta kom fram í máli Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á þingfundi í dag. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vakti athygli á málinu og sagði stöðugleikasáttmálanum haldið í öndunarvél. Eitt stærsta atriðið í honum væri hækkun persónuafsláttar og að hækkun hans skipti gríðarlega miklu máli fyrir láglaunafólk.

„Ég er ánægð með að það að framsóknarmenn séu að uppgötva hvað persónuafslátturinn skiptir miklu máli. Í tíð þeirra þegar þeir stjórnuðu skyldu þeir alltaf eftir persónuafsláttinn og hækkuðu hann ekki," sagði forsætisráðherra.

Höskuldur sagði að í fjárlagafrumvarpinu komi skýrt fram að persónuafsláttur eigi ekki að hækka. Um leið væri verið að vega að því velferðarkerfi sem framsóknarmenn hafi tekið þátt í að byggja upp.

Jóhanna sagði að um stórt og mikið viðfangsefni væri að ræða. Hækkun persónuafsláttar þýði mikil útgjöld fyrir ríkissjóð. Engu að síður væri verið að skoða leiðir til tryggja hækkun persónuafsláttar til þeirra sem lægst launuðu. „Það verður erfitt að ná þessu fram en við erum þó að skoða einhverjar leiðir til að bæta láglaunafólki þetta. Það kemur til dæmis til greina að skoða margþrepa skattkerfi,“ sagði Jóhanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×