Innlent

Útborgun atvinnuleysisbóta gengur hægt

Útborgun atvinnuleysisbóta gengur hægt og hafa fjölmargir haft samband við fréttastofu vegna þessa. Vinnumálastofnun greiðir út atvinnuleysistryggingar í dag til um 9500 einstaklinga fyrir tímabilið 20. desember til 19. janúar.

Á vef stofnunarinnar er vakinn athygli á því að þar sem umfangið er óvenju mikið þá mun það taka fram eftir degi fyrir stofnunina og banka að koma þessum greiðslum inn á bankareikninga.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálstofnunar, segir að í einhverjum tilfellum sé um tvær greiðslur að ræða og að seinni greiðslan eigi væntanlega eftir að berast fólki.

„Einnig viljum við benda umsækjendum á að útsendir launaseðlar eru í það minnsta tveir á hvern einstakling, annar fyrir árið 2008 og hinn fyrir árið 2009. Jafnframt gætu einhverjar greiðslur hafa skipst niður á fleiri en tvo seðla," segir á vef Vinnumálstofnunar. Ekki náðist að póstleggja alla launaseðla á föstudaginn.

Atvinnulausum heldur áfram að fjölga á nýju ári og á vef Vinnumálastofnunnar eru nú 13.280 skráðir atvinnulausir. Í lok síðasta árs voru 8982 skráðir án atvinnu og hefur þeim því fjölgað um 4298 á rúmum mánuði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×