Innlent

Arnkötludalur álíka stytting og Hvalfjarðargöng

Vestfirðingar bíða þess nú spenntir að geta ekið samfellt á malbiki milli Reykjavíkur og Ísafjarðar. Lagning bundins slitlags á nýja veginn um Arnkötludal er ríflega hálfnuð og vonast verktakinn til að verkinu ljúki á næstu átta til níu dögum.

Hinn 25 kílómetra langi vegur um Arnkötludal, milli Gilsfjarðar og Steingrímsfjarðar, mun marka þáttaskil í vegamálum, og þá mest fyrir byggðir á norðanverðum Vestfjörðum, Ströndum og Dalasýslu. Samgöngubótunum fyrir fólk á svæðinu má jafnvel líkja við Hvalfjarðargöngin enda fæst álíka mikil leiðastytting. Þannig styttist leiðin milli Reykjavíkur og Hólmavíkur um 40 kílómetra með Arnkötludal og sömuleiðis vetrarleiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur auk þess sem þau tímamót verða að leiðin verður öll komin með samfellt malbik.

Ingileifur Jónsson verktaki og hans menn kappkosta þessa dagana að klæða veginn og eru nú búnir að leggja slitlag á 13 kílómetra af þessum 25, þar á meðal á erfiðustu kaflana sem liggja hæst, og eiga þeir nú bara eftir dalinn næst Hólmavík, sjálfan Arnkötludal. Ingileifur segir að enn standi það sem áður var sagt, að vegurinn verði opnaður fyrir mánaðamót, en segir það skýrast betur í lok þessarar viku. Hann segir þó að ef ekki verði miklar rigningar eigi lagning slitlagsins að klárast á næstu átta til níu dögum, - það er í kringum 25. september.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×