Enski boltinn

Auðvelt hjá Manchester United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anderson og Wayne Rooney fagna marki þess síðarnefnda í dag.
Anderson og Wayne Rooney fagna marki þess síðarnefnda í dag. Nordic Photos / Getty Images
Manchester United er komið í undanúrslit ensku bikarkeppninnar eftir 4-0 sigur á Fulham á útivelli í dag.

Carlos Tevez skoraði fyrstu tvö mörk United í leiknum og þeir Wayne Rooney og Ji-Sung Park hin.

Cristiano Ronaldo var hvíldur og ekki í leikmannahópi United í dag.

Fyrr í dag komst Chelsea í undanúrslitin eftir sigur á Coventry og því möguleiki á því Chelsea og United mætist í undanúrslitunum.

Fyrra mark Tevez var með skalla á fjarstöng eftir fyrirgjöf Rooney. Síðara markið skoraði hann með þrumufleyg en staðan í hálfleik var 2-0.

Rooney fékk reyndar opið færi í fyrri hálfleik og hefði átt að skora þá en hann skaut í stöng. Hann náði reyndar að skora en var þá dæmdur rangstæður.

Rooney brást þó ekki bogalistin er hann skaut í fjærhornið með lúmsku skoti rétt utan vítateigs.

Park innsiglaði svo sigurinn með marki eftir góðan sprett upp völlinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×