Innlent

Óttast niðurskurð á fé til forvarnastarfs

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra deilir áhyggjum heilbrigðisstarfsfólks um að fé til forvarna kunni að skerðast á næstu misserum. Hann leggur áherslu á að handbært fé verði nýtt af hugkvæmni og árangur forvarnastarfs þurfi ekki að minnka þrátt fyrir lægri fjárframlög.

„Því miður er þetta ekki ástæðulaus ótti," segir Ögmundur. „Staðreyndin er sú að þegar þú ert fjárvana þá tekur þú á brýnum vanda sem er næstur þér í tíma. Þú linar þjáningar í núinu vitandi að hagkvæmt sé að hugsa til langs tíma og hyggja að forvörnum. Svo einfalt er þetta því miður ekki." Ögmundur segist hafa mikla trú á forvörnum og nú sé tími til að sýna hugkvæmni. „Það er hægt að sinna forvörnum með litlu fjármagni. Þetta er líka spurning um að innræta öllu samfélaginu þessa forvarnarhugsun."

Læknafélag Íslands boðar til tóbaksvarnaþings næstkomandi föstudag því félagið telur ekki nóg að gert í baráttunni gegn reykingum. Í ályktun segir að reykingar séu stærsti heilbrigðisvandi þjóðarinnar og að mikilvægasta aðgerðin til að breyta þessu sé að ungt fólk byrji ekki að reykja, og að reykingafólk fái aukna aðstoð til að hætta. Þar verður einnig rædd sú hugmynd að tóbak verði tekið úr almennri sölu á Íslandi sem forvarnaraðgerð, og er vísað í nýja rannsókn sem sýnir góðan árangur af reykingabanni á opinberum stöðum hérlendis.

Rannsóknin, sem Þórarinn Guðnason hjartalæknir kynnti á Evrópuþingi hjartalækna í Barcelona nýverið, sýnir að kransæðaþræðingum fækkaði meðal karla sem ekki reykja mánuðina eftir að reykingabann á opinberum stöðum tók gildi samanborið við mánuðina á undan. Könnunin hefur vakið athygli og undirstrikar niðurstöður erlendra rannsókna sem gefa jafn afgerandi niðurstöður. „Rannsókn okkar sýnir að hjá karlmönnum sem reykja ekki þá minnkar tíðni alvarlegs kransæðasjúkdóms sem þarfnast hjartaþræðingar um 21 prósent," segir Þórarinn.

Þórarinn segir það vísindalega sannað að það sem helst dragi úr tóbaksnotkun séu takmarkanir á aðgengi og verðhækkanir. Hann segir jafnframt að Læknafélagið sé að kalla eftir umræðu um reykingar í samfélaginu á öfgalausan og uppbyggjandi hátt.

Sjúkdómar tengdir reykingum eru taldir kosta þjóðfélagið tæpa þrjátíu milljarða króna á ári. Tekjur ríkisins vegna tóbakssölu eru um sjö milljarðar á ári.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×