Innlent

Gæludýr grafin í óleyfi

Gæludýr hafa verið grafin í Heiðmörk þrátt fyrir að slíkt sé stranglega bannað. Vatnsból höfuðborgarbúa eru á svæðinu.

Nokkuð hefur verið um að gæludýr hafi verið grafin í Heiðmörk og krossar jafnvel reistir við grafirnar til minningar um dýrin. Grafirnar hafa vakið athygli fólks sem þar hefur verið á göngu en fréttastofu gekk fram á fimm slíkar á ferð sinni um svæðið. Þær virðast allar hafa verið grafnar í sumar. Stranglega bannað er að grafa dýr á svæðinu. Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktar Reykjavíkur, sagði í samtali við fréttastofu að starfsmenn Skógræktarinnar rekist af og til á grafir gæludýra í skóginum. Þær séu allar gerðar í leyfisleysi. Helgi bendir á að vatnsból Reykvíkinga, Kópavogsbúa og Garðbæinga eru í Heiðmörk. Verndun vatnsbólanna sé ein af ástæðum þess að bannað er að grafa þar gæludýr.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg gildir almennt sú regla að bannað er að urða gæludýr á höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að láta brenna dauð gæludýr á dýraspítalanum í Víðidal eða láta urða dýrin í urðunarstöð Sorpu í Álfsnesi. Nokkrir gæludýragrafreitir eru einnig á landinu. Einn þeirra er Kjós en þar kostar hátt í tíu þúsund krónur að fá grafreit fyrir gæludýr. Tæplega þrjú hundruð dýr eru grafin þar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×