Enski boltinn

Carragher: Voru mistök að leyfa Anelka að fara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jamie Carragher í leik með Liverpool.
Jamie Carragher í leik með Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Jamie Carragher segir að það hafi verið mistök að leyfa Nicolas Anelka að fara frá Liverpool á sínum tíma. Hann var í láni hjá félaginu í sex mánuði árið 2002.

Gerrard Houllier, þáverandi stjóri Liverpool, ákvað að bjóða Anelka ekki samning og semja frekar við El-Hadji Diouf.

Anelka hefur átt frábæru gengi að fagna hjá Chelsea á undanförnu ári.

„Það er kannski fullmikið að segja að þetta er ein versta ákvörðun sem tekin hafi verið hjá félaginu frá upphafi en þetta voru klárlega mistök," sagði Carragher.

Hann var einnig spurður um met Liverpool sem er nú í hættu. Liverpool hefur unnið enska meistaratitilinn í átján skipti en Manchester United jafnaði þann árangur síðastliðið vor. Carragher hefur ekki áhyggjur þó svo að liðið missi metið algerlega í hendur United í vor.

„Ég óttast það frekar að vinna ekki titilinn. Auðvitað vil ég ekki að United nái þessu meti af okkur en við verðum að hætta að lifa í fortíðinni og reyna að ríghalda í þetta met."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×