Íslenski boltinn

Jónas Guðni til reynslu hjá Halmstad

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jónas Guðni í leik með KR gegn Þrótti.
Jónas Guðni í leik með KR gegn Þrótti. Mynd/Daníel

KR-ingurinn Jónas Guðni Sævarsson er nú staddur í Svíþjóð þar sem hann er til reynslu hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Halmstad.

Þetta staðfesti umboðsmaður hans, Ólafur Garðarsson, í samtali við Vísi í dag.

Dvölin verður þó stutt hjá Jónasi en hann fór í gær og kemur aftur heim á morgun. Hann nær að spila einn æfingaleik með félaginu og taka þátt í einni æfingu.

Jónas Guðni er 25 ára gamall og hefur leikið með KR síðan hann kom til liðsins frá Keflavík haustið 2007. Hann hefur síðan þá ekki misst úr deildarleik með KR og hefur því spilað alls 28 leiki og skorað í þeim tvö mörk.

Alls á hann að baki 107 leiki í efstu deild og skoraði í þeim þrjú mörk. Jónas Guðni hefur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands sem og sex sinnum með A-landsliði Íslands og hefur hann skorað tvö mörk í þeim leikjum - bæði gegn Færeyingum í Kórnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×