Íslenski boltinn

Gunnar: Við vorum bara að horfa á í fyrri hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar,.
Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar,.

Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar, var ekki ánægður með fyrri hálfleikinn í 1-2 tapi á móti Blikum í kvöld en liðið brást vel við breytingum hans í leikhléi.

„Við gáfum þeim gott forskot með því að mæta ekki til leiks. Við svöruðum því ágætlega í seinni hálfleik en því miður náðum við ekki að kvitta fyrir. Við vorum því miður bara að horfa á í fyrri hálfleik," sagði Gunnar.

„Við vorum mjög nálægt því að jafna þennan leik, sérstaklega fyrri partinn í seinni hálfleik því þá áttum við góð tækifæri.

Við áttum líka möguleika á að fá vítaspyrnu en ég sá það ekki nógu vel. Hjörtur talaði um það," sagði Gunnar.

„Blikar voru fínir í fyrri hálfleik og voru verðskuldað 2-0 yfir en það hefði enginn verið gríðarlega vonsvikinn þótt að við hefðum tekið stig hérna," sagði Gunnar.

Gunnar skipti þeim Hirti Hjartarsyni og Davíð Þór Rúnarssyni inn í hálfleik og Davíð var búinn að leggja upp mark fyrir Hjört eftir 30 sekúndur.

„Þeir vilja spila og þetta eru menn með mikla reynslu. Þeir sýndu mér það að þeir hafa áhuga á að spila í þessu liði. Ég var ánægður með það," sagði Gunnar.

Gunnar hefur engar áhyggjur af framhaldinu. „Það er klárt mál að skrekkurinn er farinn úr liðinu. Við áttum líka erfiða byrjun í fyrra og náðum að rífa okkur út úr henni. Við mætum mjög grimmir til næsta leiks sem er á móti Stjörnunni," sagði Gunnar að lokum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×