Innlent

Ömurleg skilaboð stjórnvalda

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ríkisstjórnin sendir ömurleg skilaboð, segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann telur aðgerðir hennar gegn stóriðjuáformum ávísun á meiri kreppu. Forsætis- og fjármálaráðherra reyna að gera lítið úr áhrifum boðaðra orkuskatta og þeim töfum sem úrskurður umhverfisráðherra veldur Helguvíkurálveri.

Fyrst kippir ríkisstjórnin fótunum undan álveri á Bakka, síðan Helguvíkurálveri en með áformum um orkuskatt eru öll stóriðjuáform sett í uppnám, segir Vilhjálmur Egilsson, og kallar þetta ömurleg skilaboð. Stjórnvöld á Íslandi séu ekki að vinna heilshugar með því að koma verkefnunum af stað.

Orkuskattur muni á endanum lenda á orkufyrirtækjum og rýra samkeppnisstöðu Íslands. Hann sé eitt af því sem þurfi að fara út af borðinu.

Sérfræðingur fjármálaráðuneytis áætlar að frestun stóriðjuframkvæmda um eitt ár þýði að samdráttur á næsta ári verði ekki tvö prósent heldur fjögur.

Vilhjálmur segir að fjárfestingar í atvinnulífinu á næsta ári séu algjört lykilatriði um það hvort við komumst út úr kreppunni eða ekki. Hann kallar áform ríkisstjórnarinnar mjög hættuleg. Saman með furðuákvörðun umhverfisráðherra sé þetta ekkert annað en ávísun á frekari samdrátt.

Forsætisráðherra telur of mikið gert úr úrskurðinum um Suðurnesjalínu og segir að þó að umhverfisráðherra kalli eftir fleiri gögnum þurfi það ekki að tefja málið svo neinu nemur.

Fjármálaráðherra reynir að róa menn vegna áformaðra orkuskatta og segir að ekki standi til að kollvarpa atvinnustarfsemi eða þurrka upp hagnað og forsætisráðherra kveðst enga trú hafa á því að þetta fæli frá erlenda fjárfesta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×